Nýr borgarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, segir meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur ofurseldan þéttingarstefnu sinni sem komi niður á almenningi og ungu fólki sem býr við húsnæðisskort.

Hún segir að hægt væri að byggja á einu ári yfir alla sem þurfa en vinstriflokkarnir vilji það ekki því þeir vinni ekki fyrir fjölskyldurnar í borginni. Vigdís gagnrýnir óráðsíu borgarinnar á sama tíma og grunnþjónustunni sé ekki sinnt.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá segir hún Dag B. Eggertsson borgarstjóra hafa vitað af framúrkeyrslunni en stjórnsýslan hafi haldið aftur af því að upplýsingar kæmust út. Bendir hún á í umræðum um framúrkeyrsluni við gerð braggans að upprunalegra hefði verið að flytja inn bragga frá Bandaríkjunum, því braggi sé næsta stig við tjald .

Rómantísk Borgarlína skyggði á húsnæðisskortinn

Vigdís saknar þess að ekki hafi tekist að fá umræðuna fyrir kosningar inn á stóru málin sem blasa við borgarbúum, og vísar þar í að bæði þau hjá Miðflokknum og Sjálfstæðisflokki hafi reynt að ræða um mikinn húsnæðisskort í borginni.

„En það var nánast eingöngu talað um þessa Borgarlínu, en sú umræða var sett af stað til þess að ekki þurfti að ræða þessi vandamál sem þó blöstu við fyrir kosningar. Glærusýningin hans Dags var svolítið rómantísk, ég verð að viðurkenna það. Þar var alltaf sól yfir blómum skrýddum steinsteyptum götum þar sem fólk gekk um með hunda í bandi, notaði ekki hjálm á hjóli um reiðhjólastígana og svona,“ segir Vigdís.

„Það sem blasir hins vegar við okkur, sem nú hefur tekist að upplýsa og við ætlum okkur að fylgja eftir, er það sem ég einmitt þoli síst, það er óréttlæti og sukk með opinbert fé, á sama tíma og grunnþjónustan situr á hakanum. Það er ekki verið að skipuleggja lóðir eða gera annað sem gerir ungu fólki kleift að komast að heiman og félagslegu málin sitja á hakanum.

Í síðustu viku var ég með fyrirspurn í borgarráði um aukningu lóða fyrir félagslegt húsnæði í Reykjavík og það kemur í ljós að það hefur eingöngu bæst við ein lóð síðan í maí, og ekki ein einasta íbúð síðan þá.

Það sjá allir að þessi stefna er að verða gjaldþrota, enda eru þessar 3 til 5 þúsund íbúðir fyrir þennan hóp sem áttu að koma einungis til í glærusýningu Dags. Hann er búinn að fara með þessi loforð núna í gegnum tvennar kosningar, en það sem blasir við er algert verkleysi í þessum málaflokki.“

Innviðir þegar til staðar á stórum byggingarsvæðum

Vigdís nefnir einnig málefni heimilislausra sem stjórnarandstaðan lagði áherslu á í sumar að koma þyrfti undir þak fyrir veturinn. „En þá kom einmitt unga fólkið fram og benti á að hugtakið ætti einnig við um þau sem ekki komast að heiman. Þetta er stór hópur fólks sem þrengingarstefna meirihlutans er að fara illa með.

Þetta er búinn að vera sami meirihluti í borginni, með afbrigðum, síðustu tólf ár, en þessir vinstri flokkar eru ekki að vinna fyrir fjölskyldurnar í borginni, heldur fyrir fjármagnseigendur og ég stend við það,“ segir Vigdís sem vill að farið verði í þjóðarátak í uppbyggingu húsnæðis.

„Þegar það gaus í Vestmannaeyjum var öllum siglt í land en allir fengu þeir þak yfir höfuðið, það var byggt yfir fólkið á örfáum mánuðum og málið dautt. Það er til dæmis mikill íbúðaskortur í Vík í Mýrdal og var þá farið að byggja raðhús sem kláruðust á þremur, fjórum mánuðum fyrir brot af því verði sem kostar hér í Reykjavík að byggja.

Við eigum að fara í svona verkefni uppi í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi, en allir innviðir eru þegar til staðar þar, skólar, heitt og kalt vatn, rafmagn og ljósleiðari. Það er svo mikið af landi í Reykjavík sem hægt væri að fara af stað með ódýr einingarhús á, að ef það væri raunverulegur vilji fyrir því væri hægt að koma hér öllu ungu fólki sem er eldra 23 ára á einu ári í sitt eigið húsnæði.

En fjármagnseigendur vilja það ekki og ekki meirihlutinn í borginni sem er ofurseldur þessari þrengingarstefnu sinni um þéttingu byggðar. Því um leið og íbúðaverð lækkar með auknu framboði þá missa leigufélögin spón úr aski sínum.

Þetta er ekki samsæri en með því að reka svona skortstefnu eins og gert er í Reykjavík þá er verið að stýra markaðnum, því í skorti hækkar alltaf verð. Þeir sem græða á því eru þeir sem eiga íbúðir fyrir og þá helst þeir sem eru að fjárfesta í húsnæði og leigja á verðum sem enginn ræður við þó að fólk láti sig hafa það af brýnni þörf.“

Gámabyggingarstíll lýti á miðbænum

Vigdís nefnir uppbygginguna gegnt Stjórnarráðinu sem nú er byrjað að taka í gagnið sem enn eitt hræðilegt dæmið um afleiðingar þéttingarstefnu borgarstjórnarmeirihlutans.

„Það er lítill arkitektúr í þessu sem heitir, þetta eru eins og gámar byggðir hver ofan á annan. Þarna er verið að reyna að koma sem mestu magni á sem minnst pláss og byggja það eins hátt upp og hægt er til að fá sem flesta fermetra til að selja. Þetta er svo mikið lýti á miðbænum og með þessu er Harpan sem átti að vera kennileiti í borginni, komin algerlega á kaf. Svo á að flytja þarna inn einhverja rándýra merkjavöru til að selja á neðstu hæðum húsanna. Ég skil ekki hvaða þráhyggja þetta er að við þurfum að vera eins og afrit af öðrum borgum á meginlandi Evrópu. Af hverju erum við ekki að flagga okkar íslensku sérstöðu? Ég vil sjá Reykjavík þróast náttúrulega sem fjölskylduvæna borg en þessi þéttingastefna er að útrýma öllum opnum og grænum svæðum án þess að það skili sér í að íbúar borgarinnar hafi ráð á að kaupa sér þak yfir höfuðið.“