Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, greindi frá því á Alþingi í dag að vinna væri hafin við að byggja upp innra eftirlit með störfum lögreglunnar. Vinnan hafi hafist síðastliðið sumar samkvæmt tillögu frá ríkissaksóknara.

Þetta kom fram í svari Sigmundar Davíðs við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um afstöðu hans til sjálfstæðs eftirlits með lögreglunni.

Sigmundur sagði best fara á því að slíkt eftirlit heyrði ekki undir sömu stjórn og lögreglan. „Rétt eins og í allri löggæslu og dómskerfinu þá þurfa að sjálfsögðu þræðirnir að liggja saman einhvers staðar og þeir hafa gert það í innanríkisráðuneytinu.“ Hann sagðist telja líklegt að þeir sem hefðu innra eftirlit með lögreglunni hefðu svipað sjálfstæði í sínum störfum og saksóknarar.