Kartan Már Kjartansson var skipaður bæjarstjóri Reykjanesbæjar, árið 2014 og óhætt er að fullyrða að hann hefur síðan þá gengið í gegnum mikla sviptingartíma á svæðinu. Suðurnesin hafa á örskömmum tíma farið úr því að vera það svæði sem kom hvað verst undan bankahruninu yfir í að vera eitt blómlegasta atvinnusvæði landsins og nú er svo komið að fólk flykkist að og barist er um fasteignir í Reykjanesbæ.

Vinna í því að bæta ímynd svæðisins

Staða Reykjanesbæjar hefur verið erfið undanfarin ár, atvinnuleysi var hvað mest á landinu, mikið um gjaldþrot og uppboð á fasteignum auk þess sem kannanir tengdar grunnskólum komu ekki vel út. Óhætt er að fullyrða að viðhorf til sveitarfélagsins hafi litast nokkuð af þessu en að sögn Kjartans er staðan önnur í dag.

„Já, ef viðhorfið er ekki búið að snúast við þá held ég að þetta hljóti að vera að snúast við núna. Það er reyndar langt síðan skólamálunum var snúið við, við höfum náð gríðarlega góðum árangri í samræmdum prófum og núna síðast vorum við hástökkvarar Íslands í PISA-könnuninni. Þegar við sáum að nemendur og skólar voru ekki að standa sig nógu vel tókum við mjög markvisst á þeim málum og því var snúið við. Það er alveg rétt að atvinnuleysi var langmest á Suðurnesjunum á sínum tíma eða um 15% enda hver áföllin sem ráku annað, fyrst fór herinn og svo kom hrunið, allt hvað ofan í annað. Við erum búin að snúa þessu öllu við núna, allavega hvað varðar innviði sveitarfélagsins en ímyndin mun kannski taka lengri tíma og þar er t.d. öll umfjöllunin um kísilverið ekki að hjálpa til. Þetta er snúið mál og við verðum einfaldlega að láta verkin tala. Auðvitað er hægt að fara í auglýsingaherferðir og reyna að poppa þetta eitthvað upp en það verður að vera innistæða fyrir því og við erum að vinna í henni.“

Öfgakennd fólksfjölgun

Það hefur orðið ótrúleg fólksfjölgun á svæð­inu nánast yfir nóttu og margt sem spilarinn í eins og verð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu og uppbygging flugvallarins. Í úttekt sem ISAVIA lét gera, gera svartsýnustu spár ráð fyrir að 380 störf verði til á vellinum að meðaltali á ári til ársins 2040. Hvernig hafið þið brugðist við svona ótrúlega mikilli fjölgun á stuttum tíma?

„Það á í raun eftir að koma í ljós en það var og hefur verið talsvert framboð á húsnæði á svæðinu. Ef við horfum á Suðurnesin sem eitt svæði þá fjölgaði íbúum á síðasta ári um 6,6% en í Reykjanesbæ um 7,4%, sem eru rúmlega 1.100 manns en það sem af er ári hefur aðeins hægt á þessari þróun en árið er svo sem ekki búið. Eins má nefna að í Sandgerði var meiri fjölgun eða um 8% og talsvert af húsnæði sem var laust og stóð einfaldlega til boða. Við sjáum það í Reykjanesbæ að fólk er mikið að kaupa sér húsnæði og gera það upp, Íbúðalánasjóður átti fjölmargar íbúðir enda fékk hann þetta í fangið í gjaldþrotum og hefur náð að selja þetta einhverjum sem vilja nýta færið og búa sér til pening. Það er hið besta mál.

Ég er þeirrar skoðunar að ef Ásbrúarsvæðið hefði ekki notið við þá hefði þetta orðið mjög erfitt. Þar er pláss fyrir þúsundir manna sem hefur bara verið að hluta til nýtt en nú er ríkið búið að selja allar eignirnar og þar eru nú iðnaðarmenn á fullu að uppfæra íbúðir og húsnæði. Þangað munu svo á næstu misserum flytjast einhver hundruð eða þúsundir nýrra íbúa en síðast en ekki síst þá eru heilmikil byggingaráform þegar komin í gang. Við erum búin að úthluta nánast öllum lóðum sem við áttum til en þær voru fjölmargar og hjá okkur verða byggðar um 2.200 íbúðir á næstu misserum.

Fasteignaverðið hækkar mjög hratt á svæðinu og fasteignasalar segja mér að þeir sjá nánast mun á milli mánaða. Fólk er samt að koma í miklum mæli til okkar og við finnum það sérstaklega hvað varðar fólk sem er að vinna í tengslum við flugvöllinn. Flugmenn og flugfreyjur spara sér auðvitað mikinn tíma þegar þau þurfa ekki að keyra á milli og fá kannski stórt hús fyrir íbúðina sína í Reykjavík auk þess sem skólarnir eru orðnir eftirsóknarverðir.“

Viðtalið við Kjartan má lesa í heild sinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.