„Vinna veldur vanlíðan“ er meginniðurstaða könnunar sem nýverið var birt af tveimur hagfræðingum sem starfa hjá London School of Economics og Háskólanum í Sussex. Niðurstaðan bendir til þess að einstaklingar á vinnumarkaði séu óhamingjusamir og áhyggjufullir þegar þeir eru í vinnunni.

Þátttakendur í rannsókninni, sem unnin var með snjallsímaforriti, sögðu það að vera rúmliggjandi vegna veikinda vera það eina sem sé óþægilegra en að mæta til vinnu. Flestir kusu frekar að greiða reikninga eða þrífa húsið fram yfir það að vinna.

Greint er frá könnuninni á Real Time Economics, bloggsvæði Wall Street Journal. Alex Bryson, annar hagfræðinganna sem unnu könnunina, segir að niðurstöðurnar komi ekki endilega á óvart. Þótt atvinna geti gefið vel af sér, þá geti hún einnig valdið áhyggjum. Þess vegna fáist greiðsla fyrir vinnuna, því annars myndu flestir kjósa að gera eitthvað allt annað.

Hagfræðingarnir notuðustu við snjallsímaforritið Mappiness, sem ætlað er að grípa tilfinningar notenda í rauntíma. Yfir tíu þúsund manns á vinnumarkaði, flestir í Bretlandi, sendu inn ríflega milljón svör en forritið hefur verið aðgengilegt frá árinu 2010.