Vinna við stofnun orkuauðlindasjóð er hafin innan fjármálaráðuneytisins en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra tilkynnti að hann vildi stofna slíkan sjóð á ársfundi Landsvirkjunar í vor. Þetta staðfestir Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður Bjarna í samtali við Kjarnann.

Bjarni sagði á ársfundi Landsvirkjunar að sjóðnum yrði ætlað að vera stöðugleikasjóður, eins konar varasjóður ríkisins, til þess að jafna út efnahagssveiflur. Sjóðurinn yrði jafnframt notaður til þess að byggja upp innviði samfélagsins, eins og spítala og menntakerfi.

Teitur segir að vinnan sem fer nú fram innan ráðuneytisins sé aðeins undirbúningsvinna, verið sé að safna gögnum og fleira slíkt.

Þegar Bjarni talaði um sjóðinn í vor talaði hann um að í sjóðinn gætu safnast háar fjárhæðir.

„Honum er ætlað að lifa miklu lengur en einstakar ríkisstjórnir. Það er einungis þannig sem menn geta byggt upp raunverulegan varasjóð sem hefur þýðingu. Þetta geta verið mjög háar tölur. Á tíu árum, ef menn falla ekki í þá freistni að fara út af sporinu, geta 20 milljarðar á ári safnast í 200 milljarða varasjóð. Menn eiga ekki að hugsa þetta í fimm eða sjö árum, heldur frekar áratugum,“