*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 3. nóvember 2017 13:43

Vinnanlegt magn af gulli í Þormóðsdal

Stjórnarformaður Iceland Resources segir niðurstöður úr jarðvegssýnum ýta undir leyfi til að gera rannsóknarboranir.

Ritstjórn
epa

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson  stjórnarformaður Iceland resources, segir borun eftir jarðsýnum fyrir gulleit í Þormóðsdal ekki hafa nein umhverfisleg áhrif.  Félagið bíður þess að kærunefnd úrskurði um höfnun Mosfellsbæjar á rannsóknarleyfi á gullmagni í bergi í dalnum. 

Niðurstöður úr jarðvegssýni sem tekin voru þar í fyrra renna stoðum undir að þar sé vinnanlegt magn af gulli, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er félagið með leyfi til leitar á nokkrum stöðum hér á landi, þar á meðal í Vopnafirði þar sem það hefur fengið framkvæmdaleyfi.

„Þarna vorum við ekki að bora heldur er þetta úr grjóti á jörðinni en með borun geturðu komist í gullæðarnar og staðfest magnið,“ segir Vilhjálmur Þór í samtali við Fréttablaðið. „Nýju tölurnar eru í samræmi við það sem áður hefur komið fram og staðfesta að gullið sé á svæðinu.“

Félagið, sem er í eigu kanadíska félagsins St-Georges Platinum & Base Metals Ltd., hefur alls sótt um átta rannsóknarleyfi víðs vegar um landið. Segir Vilhjálmur að kanadíska félagið geti leitað að gulli á hagkvæmari hátt en almennt þekkist, og því þurfi gullmagnið ekki að vera jafnhátt og almennt sé.

„Hér á landi eru oft há gullgildi frekar á litlum svæðum en í föstu bergi, enda gengurðu ekki fram á gullmola á Íslandi,“ segir Vilhjálmur Þór, sem segir að annars þurfi gullmagnið að ná 10 grömmum í tonni til að vera vinnanlegt.

Leyfisveiting Orkustofnunar til félagsins til rannsókna á gulli á 1.013 ferkílómetra svæði á Tröllaskaga hefur verið kærð af 34 landeigendum til úrskurðar umhverfis- og auðlindamála, en niðurstöðu er ekki að vænta fyrr en um mitt ár 2018.„Þeir hafa rétt til að kæra en í raun og veru snýr kæran ekki að okkur heldur stjórnsýslulegri meðferð málsins.“