Rekstrarskilyrði í bolfiskvinnslu hafa breyst og kaupendur gera meiri kröfur um ferskleika, skjóta afgreiðslu og sveigjanleika.  Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf., segir í viðtali við RÚV, að vegna þessara breyttu aðstæðna hafi verið ákveðið að flytja alla fiskvinnslu til Grindavíkur.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hyggst Vísir loka fiskvinnslum sínum á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi en í heildina starfa um 150 manns í vinnslunni á þessum þremur stöðum. Fólkinu hefur öllu verið boðin vinna í Grindavík vilji það flytja.

„Til að hafa sveigjanleikann eins og markaðurinn vill að hann sé, þá þurfum við að hafa þetta á sama stað. Þannig að við getum verið í fersku, söltu, léttsöltuðu, og öllum þeim framleiðslulínum sem markaðurinn óskar af okkur." Segir Pétur í samtali við RÚV.