Vinnslustöðin hf. hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem áliti umboðsmanns Alþingis er fagnað. Umboðsmaður taki undir sjónarmið Vinnslustöðvarinnar og með því sé umboðsmaður að „slá á pólitíska fingur ráðherra.“

Eins og VB.is fjallaði um í morgun komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að úthlutun makrílkvóta hafi verið ólögleg í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar. Ísfélag Vestamannaeyja og Vinnslustöðin kvörtuðu bæði til umboðsmanns Alþingis vegna úthlutun makrílkvótans en umboðsmaður gaf út sameiginleg álit um erindin.

Sigurður Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi orðið fyrir gríðarlegu tjóni vegna þess að það hafi fengið að veiða minna af makríl en gert var ráð fyrir. Hann telur tjónið nema um tveimur milljörðum. Afleiðing úthlutunar ráðherrans var mikill tekjusamdráttur með tilheyrandi áhrifum á afkomu og störf starfsfólks Vinnslustöðvarinnar á sjó og landi. Vinnslustöðin þurfti t.a.m. að leggja einu skipi, sem sérstaklega var útbúið til makrílveiða og segja áhöfn þess upp störfum.