Vinnslustöðin hagnaðist um jafnvirði 1,8 milljarða íslenskra króna í fyrra. Þetta er besta uppgjörið í sögu félagsins en til samanburðar hagnaðist það um 700 milljónir árið 2010. Vinnslustöðin gerir líkt og mörg önnur útgerðafélög í erlendri mynt, í tilviki Vinnslustöðvarinnar eru það evrur, og upphæðirnar því umreiknaðar í krónur.

Eigendur félagsins fá greiddar 830 milljónir í arð. Það svarar til 45% af hagnaði Vinnslustöðvarinnar. Hluthafar Vinnslustöðvarinnar eru 250 talsins. Fram kom í umfjöllun fréttavefs Viðskiptablaðsins, vb.is , í gær að tveir hluthafar eigi helming í félaginu. Það eru félögin Stilla útgerð og Seil. Miðað við eignahlut þeirra fá félögin 50,6% arðgreiðslunnar, rétt tæpar 420 milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Vinnslustöðinni að arðgreiðslan jafngildi 30% af nafnverði hlutafjár og svari til um 13% vöxtum af því fé sem hluthafar hafa bundið í félaginu.

Fram kemur í uppgjöri Vinnslustöðvarinnar að tekjur hafi aukist um 12% frá fyrra ári enda aðstæður á erlendum mörkuðum félaginu hagfelldar og verð á helstu þess í sögulegu hámarki.

Í tilkynningu frá Vinnslustöðinni er haft eftir Guðmundi Erni Gunnarssyni, stjórnarformanni útgerðarinnar, að ýmsar blikur væru á lofti varðandi afkomu og framtíðarrekstur. Hann vísaði til þess að verð færi lækkandi á helstu útflutningsafurðum og áhrifa laga um að margfalda veiðileyfagjöld á sjávarútvegsfyrirtæki færi að gæta svo um munar á næsta fiskveiðiári.

Þá kemur fram að Vinnslustöðin greiði 190 milljónir króna í veiðileyfagjald á yfirstandandi fiskveiðiári og komi til með að greiða ríflega fjórfalt hærri upphæð á næsta fiskveiðiári eða 820 milljónir króna. Eftir þrjú til fjögur ár verður Vinnslustöðinni gert að greiða veiðigjöld upp á 1,5 milljarða króna til ríkisins eða sem svarar til stórs hluta hagnaðar félagsins í fyrra.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sagði í samtali við vb.i s í gær, gjaldið að óbreyttu geta numið á milli 1,3 til 1,5 milljörðum króna á næsta ári.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar greindi svo frá því í gær að 41 starfsmanni hafi verið sagt upp. Þar á meðal er 30 manna áhöfn skipsins Gandí og 11 starfsmenn í landi. Skipinu verður lagt eftir að makrílveiðum lýkur.