Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Vinnslustöðin tilkynnti, 4. nóvember síðastliðinn, kaup á 75% hlutafjár í fiskvinnslufyrirtækinu Hólmaskeri ehf. Samkeppniseftirlitið birti ákvörðun vegna kaupanna, föstudaginn 26. nóvember síðastliðinn, og komst að þeirri niðurstöðu að kaupin feli í sér samruna í skilningi samkeppnislaga en að ekki séu forsendur til þess að aðhafast frekar í málinu.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Hólmasker muni „vinna fisk bæði ferskan og frosinn, sem verður einkum seldur inn á markað á austurströnd Bandaríkjanna".

Í samrunaskrá segir jafnframt að tilgangur Vinnslustöðvarinnar með fjárfestingunni sé „að styrkja sig í vinnslu ýsuafurða til sölu inn á markaði á austurströnd Bandaríkjanna". Þar segir að Vinnslustöðin hafi lítið sem ekkert sinnt þeim mörkuðum í starfsemi sinni.