Stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum samþykkti á fundi sínum í gær að segja upp 41 starfsmanni og setja uppsjávar- og bolfiskskipið GandÍ VE-171 á söluskrá. Þrjátíu manns eru í áhöfn skipsins og verður þeim sagt upp ásamt 11 manns í landvinnslu fyrirtækisins. Skipinu verður lagt að lokinni makrílvertíð í ár og verður skipið auglýst til sölu eftir það.

Fólkinu sem verður sagt upp jafngildir 13% af starfsmannafjölda Vinnslustöðvarinnar.

Í tilkynningu frá Vinnslustöðinni segir að gripið verði til aðgerðanna vegna rúmlega helmings skerðingar á aflaheimildum í makríl fyrir skip útgerðarinnar á yfirstandandi fiskveiðiári, skerðingu aflaheimilda Vinnslustöðvarinnar upp á 700 þorskígildistonn á næsta fiskveiðiári og stórhækkuðu veiðileyfagjaldi í nýsamþykktum lögum frá Alþingi.

Tekið er fram í tilkynningu að óskandi sé að um hræðsluáróður að ræða. Svo sé hins vegar ekki. Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hafi undanfarna daga farið rækilega yfir afleiðingar skerðinga veiðiheimilda og nýrra laga um veiðigjöld fyrir rekstur fyrirtækisins. Myndin sem við blasi sé jafnvel enn dekkri og ískyggilegri en áður hafði verið talið. Vinnslustöðin geti ekki borið þá bagga sem stjórnvöld og Alþingi bindi fyrirtækinu.

Þessu til viðbótar fót stjórn Vinnslustöðvarinnar Sigurgeiri B. Kristgeirssyni framkvæmdastjóra að vinna til haust að heildarendurskoðun á rekstrinum með frekari hagræðingaraðgerðir í huga í ljósi stöðunnar sem upp er komin í íslenskum sjávarútvegi.