Stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum leggur til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður næstkomandi föstudag, að félagið leggi Sparisjóði Vestmannaeyja til 50 milljónir króna með kaupum á stofnfé. Skilyrði fyrir þessu verði að ríkissjóður komi að stofnfjáraukningu í sjóðnum. Samþykktin fellur úr gildi í lok þessa árs hafi þessar aðgerðir þá ekki orðið að veruleika.

Með lögum sem sett voru vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði sl. haust var ríkissjóði veitt heimild til að leggja sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af eigin fé. Í tilkynningu viðskiptaráðuneytisins hinn 21. mars sl. kom fram að Sparisjóður Vestmannaeyja væri meðal þeirra sparisjóða sem ríkið hefði gripið til aðgerða til að treysta rekstur hjá.

Eigið fé Sparisjóðs Vestmannaeyja var í árslok 2007 rúmir 1,8 milljarðar króna. Fimmtungur þess er um 370 milljónir króna, sem væri samkvæmt fyrrnefndum lögum hámarksfjárhæð þess sem ríkissjóður myndi leggja sparisjóðnum til. Sparisjóðurinn hefur ekki birt reikning fyrir árið 2008.