Vinnslustöðin hf. hefur gert samkomulag um kaup á nóta- og togskipinu Gullbergi VE-292 af Ufsabergi ehf. í Vestmannaeyjum ásamt öllum uppsjávarheimildum þess, sem eru 2,2% af loðnu, 1,1% af síld, 2,5% af norsk-íslenskri síld auk óverulegrar hlutdeildar í kolmunna. Kaupverðið greiðist með 1.160 þorskígildistonnum af bolfiskheimildum og tæplega 400 milljónum króna.

Með kaupunum styrkir Vinnslustöðin hf. stöðu sína verulega í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Eftir kaupin á félagið um 10,25% í loðnu, tæp 10% í síld, 6,8% af norsk-íslenskri síld og 3,7% af kolmunna. Auk þessa er Vinnslustöðin hf. þátttakandi í útgerð Hugins ehf. sem á og gerir út samnefnt uppsjávarfrystiskip.