Hagnaður Vinnslustöðvarinnar á liðnu ári nam 547 milljónir króna og jókst um 298 milljónir króna frá fyrra ári þegar hann var 249 milljónir króna. Þetta er mun betri afkoma en áætlun félagsins gerði ráð fyrir en reiknað var með 272 milljóna króna hagnaði. Samkvæmt áætluninni var gert ráð fyrir stöðugu gengi íslensku krónunnar á árinu og er mismunur á raun og áætlun vegna styrkingarinnar sem varð á henni á tímabilinu.

Heildartekjur félagsins voru 4.005 milljónir króna og jukust um 626 milljónir króna frá fyrra ári. Tekjuaukningin skýrist af auknum umsvifum í vörusölu félagsins sem felast fyrst og fremst í kaupum og sölu á mjöli og lýsi.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 1.025 milljónum króna og jókst um 19 milljónir króna frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall félagsins var 25,6% á móti 29,8% árið áður. Endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir 1.000 milljóna króna framlegð.

Veltufé frá rekstri nam 850 milljónum króna á árinu og var 21,2% af rekstrartekjum, sem er svipað og á árinu 2003.

Afskriftir jukust um 98 milljónir króna frá fyrra ári og námu 640 milljónum króna. Hækkun afskrifta skýrist af auknum aflaheimildum félagsins.

Niðurstaða fjármagnsliða var jákvæð um 262 milljónir króna. Gengishagnaður var 450 milljónir króna en á síðasta rekstrarári var hann 134 milljónir króna.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að í heildina hafi afkoman verið 2004 viðunandi í ljósi aðstæðna og í samræmi við áætlanir. Hins vegar er rétt að benda á að aflaheimildir félagsins hafa vaxið um 54% á þrem undangengnum fiskveiðiárum með kaupum og sameiningum við önnur félög. Á rekstrarárinu 2000/2001 var framlegð félagsins 1.026 milljónir króna og aflaheimildir þess tæp 12 þúsund þorskígildistonn. Á síðasta rekstrarári var framlegðin 1.025 milljónir króna eins og að framan greinir en þorskígildistonn félagsins á yfirstandandi ári eru um 17.700. Af þessu má sjá að raunsamdráttur í framlegð félagsins á síðustu fjórum árum hefur verið gríðarlegur og líkur er á að samdráttur í framlegð aukist enn frekar með gengi krónunnar svo sterkt sem raun ber vitni.

Stjórn félagsins íhugar nú að taka upp svokallað virðisrýrnunarpróf við gerð reikningsskila félagsins. Ekkert hefur verið ákveðið enn sem komið er í þeim efnum en ákvörðun um upptöku þess verður tekin fyrir aðalfund félagsins.

222 milljóna króna hagnaður á fjórða ársfjórðungi

Á fjórða ársfjórðungi, þ.e. 1. október til 31. desember 2004, voru tekjur 819 milljónir króna og rekstrargjöld námu 673 milljónum króna. Framlegð tímabilsins var því 146 milljónir króna og hagnaður var 222 milljóna króna. Síldveiðar gengu vel á haustmánuðum sem skýrir viðunandi framlegð tímabilsins. Hagnaður var á rekstri félagsins á sama tímabili í fyrra að upphæð 33 milljónir króna.

Heildarskuldir félagsins lækkuðu um 654 milljónir króna á árinu og voru í lok árs 2004 5.561 milljónir króna. Nettóskuldir félagsins voru 4.043 milljónir króna og lækkuðu um 660 milljónir króna frá árinu áður. Skuldir félagsins eru að langmestu leyti í erlendum myntum og hefur því styrking krónunnar á árinu áhrif á skuldir félagsins til lækkunar.

Eigið fé jókst frá áramótum um 237 milljónir króna. Hækkun á eigin fé er vegna hagnaðar ársins að upphæð 547 milljónir króna en á móti kom arður að upphæð 310 milljónir króna, sem greiddur var út á árinu.

Rekstrarhorfur á yfirstandandi ári

Rekstraráætlun félagsins fyrir yfirstandandi ár hljóðar upp á liðlega 900 milljóna króna framlegð og svipaða veltu og á síðastliðnu rekstrarári. Loðnuveiðar hafa farið þokkalega af stað en afkoma félagsins veltur mikið á gengi loðnuveiða og vinnslu. Haldist gengi íslensku krónunnar stöðugt til ársloka er gert ráð fyrir að hagnaður af rekstri félagsins verði um 50 milljónir króna.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 30% arður og að réttur til arðs miðist við hluthafaskrá í lok aðalfundardags. Arður verður greiddur 10. júní 2005. Ákveðið hefur verið að halda aðalfund félagsins 6. maí 2005.