Vinnslustöðin segir að rekstrarhorfur fyrirtækisins séu óvissar á síðari hluta ársins. Litlar líkur séu á að síldveiðar úr íslenska síldarstofninum verði leyfðar og það sé annað áfall félagsins á árinu því loðnuveiðar hafi nánast engar verið á síðustu vertíð. Vegna þessa þyki ljóst að tekjur og framlegð félagsins muni dragast talsvert saman frá fyrra ári. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu vegna fyrri helmings rekstrarársins, en þar segir einnig að staða Vinnslustöðvarinnar sé þrátt fyrir þetta sterk og að félagið hafi burði til að mæta tímabundnum áföllum sem þessum.

Lækkandi framlegð

Félagið gerir upp í evrum og voru tekjurnar á fyrri helmingi ársins 25 milljónir evra, en 33 milljónir á sama tímabili í fyrra. Framlegð á fyrri helmingi ársins var 19,7%, sem er lækkun úr 21,6% í fyrra og 28,9% á fyrstu sex mánuðum ársins 2007.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði lækkaði á milli ára en jókst fyrir skatta, þar sem fjármagnsliðir komu mun betur út í ár en í fyrra. Munar þar mest um hlutdeild í afkomu dótturfélaga, þar sem var um viðsnúning að ræða, og um minnkandi fjármagnsgjöld. Hagnaður eftir skatta nam 2,9 milljónum evra, en var 3,4 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Skuldir og skuldbindingar nema 70 milljónum evra og eiginfjárhlutfallið er 27,7%, sem er aukning úr 26% í fyrra.