Tap Vinnslustöðvarinnar hf. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var 1.153 milljónir króna, samanborið við 765 milljóna króna hagnað félagsins á sama tíma í fyrra. Heildartekjur félagsins voru 1.623 milljónir króna á tímabilinu, en tekjur lækkuðu bæði í útgerð og fiskvinnslu frá fyrra ári.

Framlegð félagsins nam tæplega 370 milljónum króna og dróst saman um 35,7% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall lækkaði úr 33,8% í 22,8%. Lækkun framlegðar skýrist að mestu leyti af minni loðnuveiði í ár en á sama tíma í fyrra.

Niðurstaða fjármagnsliða var neikvæð um 1.470 milljónir á fyrsta ársfjórðungi. Gengistap langtímaskulda félagsins var 1.487 milljónir króna, sem skýrist af áhrifum veikingar krónunnar á tímabilinu. Í fyrra voru fjármagnsliðir félagsins jákvæðir um 378 milljónir króna.

Á fyrsta ársfjórðungi hækkuðu heildarskuldir félagsins um 1.548 milljónir og eru nú 7.778 milljónir króna. Eigið fé dróst saman um 44%, eða 1.153 milljónir.

Í tilkynningu félagsins um afkomutölur segir að rekstrarhorfur á yfirstandandi rekstrarári séu óvissar eins og undanfarin ár. Það að útgefinn loðnukvóti var lítill á þessu ári muni hafa mikil áhrif á afkomu félagsins, en loðnuveiðar hafi mikla þýðingu fyrir Vinnslustöðina hf. Lækkandi gengi krónunnar og hátt fiskverð á erlendum mörkuðum hafi þó jákvæð áhrif á rekstrarhorfur félagsins og vonir standi til þess að félagið nái að halda framlegð síðasta árs.