Vinnslustöðin tapaði 368 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 463 milljónum króna.

Heildartekjur félagsins voru 3.372 milljónir króna og jukust um 14,3% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur fiskvinnslu jukust um 30,7% en tekjur útgerðar jukust um 3,5%. Rekstrargjöld jukust um 8%.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) er sú hæsta síðastliðin fimm ár og nam 911 milljónum króna og jókst um 35,9% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall hækkaði úr 22,7% í fyrra í 27,0% í ár.

Afskriftir lækkuðu um tæpar 12 milljónir króna frá fyrra ári og voru tæplega 171 milljón króna.

Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 297 milljónir króna og framlegð þess á tímabilinu var 37 milljónir króna. Tap félagsins eftir skatta nam 286 milljónum króna, þar af nam gengistap félagsins 290 milljónum króna. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í þessu tapi Hugins ehf. nam 137 milljónum króna.

Fjármagnskostnaður félagsins nam 1.021 milljón króna á fyrstu sex mánuðunum, þar af nam gengistap 1.030 milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra voru fjármagnsliðir jákvæðir um 77 milljónir króna.