Tap Vinnslustöðvarinnar á fyrri helmings ársins var 950 milljónir króna. Er það mikil breyting frá sama tíma í fyrra þegar hagnaður var fyrstu sex mánuði ársins að upphæð 1.116 milljónir króna, að því er segir í afkomutilkynningu.

Heildartekjur félagsins voru 3.857 milljónir króna og hækkuðu um 16% frá sama tímabili í fyrra.  Rekstrarekjur fiskvinnslu jukust um rúm 11% en tekjur útgerðar lækkuðu lítillega. Rekstrargjöld jukust um liðlega 22%.

Jukust rekstrargjöld í útgerðardeildum en lækkuðu í fiskvinnsludeildum.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 968 milljónum króna og var nánast sú sama og á sama tímabili á fyrra ári.

Framlegðarhlutfall lækkaði úr 28,9% í fyrra í 25,1% í ár.

Veltufé frá rekstri nam 892 milljón króna og var 23% af rekstrartekjum, jókst hlutfallið um 6% frá sama tímabili í fyrra.

Afskriftir hækkuðu um rúmar 7 milljónir króna frá fyrra ári og voru 219  milljónir króna.

Rekstrarhorfur það sem eftir er ársins eru ágætar, segir í tilkynningunni. Veik króna og hátt afurðaverð flestra afurða félagsins, einkum mjöls og lýsis, vekur vonir um að afkoma á seinni hluta ársins verði ágæt.  Veiðar uppsjávarskipa félagsins hafa  gengið vel og makrílveiði er góð búbót.

Hækkandi verð ýmissa aðfanga vinnur á móti ávinningi af gengisfalli krónu.  Hátt olíuverð vegur þungt í rekstri félagsins og hefur neikvæð áhrif auk þess sem áhrifa minnkandi eftirspurnar er tekið að gæta, einkum í dýrari afurðaflokkum.