Um 73% fyrirtækja telja að framboð á vinnuafli sé nægjanlegt en aðeins um 27% telja sig skorta starfsfólk. Þetta kemur fram í könnun um stöðu og framtíðarhorfur hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins sem Samtök atvinnulífsins létu gera og finna má upplýsingar um á vef samtakanna.

Í hliðstæðri könnun í september 2007 var á hinn bóginn skortur á starfsfólki hjá um 58% fyrirtækjanna. Aðstæður eru þó nokkuð misjafnar eftir atvinnugreinum og landshlutum eins og eftirfarandi mynd sýnir.

Athygli vekur að aðeins 6% fyrirtækja í byggingarstarfsemi telja sig skorta starfsfólk, en í ýmissi sérhæfðri þjónustu skortir hins vegar starfsfólk hjá rösklega helmingi fyrirtækjanna. Þá er lítil umframeftirspurn eftir vinnuafli á landsbyggðinni, en á höfuðborgarsvæðinu skortir á hinn bóginn starfsfólk hjá um þriðjungi fyrirtækjanna segir í könnun SA.

Ráðningaráform á næstu sex mánuðum eru jafnframt minni en í fyrri könnunum. Rösklega helmingur fyrirtækjanna (54%) gerir ráð fyrir óbreyttum starfsmannafjölda að hálfu ári liðnu, um fjórðungur ráðgerir fjölgun og röskur fimmtungur fækkun. Mestrar fjölgunar er vænst í ýmissi sérhæfðri þjónustu, en í öðrum atvinnugreinum er ýmist jafnvægi milli ætlaðrar fjölgunar og fækkunar starfsmanna eða að búast má við fækkun, eins og eftirfarandi mynd gefur til kynna. Koma fram einna mest áform um fækkun starfsmanna í byggingarstarfsemi.