Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,3% milli desember og janúar en spár markaðsaðila voru á bilinu 0,0%-0,2%, segir greiningardeild Glitnis, sem spáði óbreyttri vísitölu.

?Helstu frávik í spá okkar felast í því að við gerðum ráð fyrir minni hækkun matvöruverðs en raunin varð og verð á nýjum bílum hækkaði umfram væntingar okkar. Þá hækkuðu einnig vinnuaflsfrekir þjónustuliðir en hækkun á þeim vegna launahækkunar í janúar hefur oft ekki komið fram fyrr en í febrúar.

Hækkun opinberrar gjaldskrár var svipuð og við gerðum ráð fyrir. Lækkun vegna útsölu á fötum og skóm hefur ekki verið eins mikil í janúar og nú. Undanfarin ár hafa útsöluáhrif á fötum og skóm stöðugt aukist og útsölur dýpkað en þau áhrif hafa yfirleitt dreifst á janúar- og febrúarmælingar vísitölunnar,? segir greiningardeildin.

Hún segir að þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað nokkuð umfram spár á milli mánaða lækkar verðbólgan úr 7,0% niður í 6,9%.

?Verðbólgan hefur þar með hjaðnað allnokkuð frá því að hún náði hámarki sínu í 8,6% í ágúst í fyrra. Við reiknum með því að verðbólgan haldi áfram að hjaðna á næstunni og mjög snarpt í mars þegar fram koma aðgerðir ríkisstjórnarinnar til lækkunar matvælaverðs. Við reiknum með því að verðbólgan verði þá um 4% og að hún verði komin undir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir mitt þetta ár,? segir greiningardeildin.

Hún segir að íbúðaverð lækki töluvert milli mánaða eða um 0,7%. ?Þar munar mest um 1,1% lækkun fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu. Einbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði í verði um 0,4% en húsnæðisverð á landsbyggðinni hækkaði um 0,1%. Sé vaxtakostnaður, eins og hann er tekinn með í útreikningum Hagstofunnar á kostnaði vegna eigin húsnæðis, tekinn með nam verðlækkunin á eigin húsnæði aðeins 0,2%. Þessi þróun er í samræmi við væntingar okkar en við höfum verið að spá lækkun verðs á íbúðarhúsnæði vegna hærri vaxtakostnaðar, minna lánaframboðs og aukins framboðs á nýju íbúðarhúsnæði,? segir greiningardeildin.