Fyrirsjáanlegar deilur á vinnumarkaði gætu frestað nýskráningum nokkurra fyrirtækja í Kauphöll Íslands. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa stjórnendur og stjórnarmenn í félögum, sem stefnt hafa að skráningu á fyrri hluta þessa árs, áhyggjur af því að átök á vinnumarkaði hafi slæm áhrif á útboðin. Ekki er útilokað að útboðum verði frestað fram á næsta ár.

Forsvarsmenn Eikar, Reita og Símans hafa um nokkurt skeið stefnt að því að skrá félögin á hlutabréfamarkað á fyrri hluta ársins. Nú hafa forystumenn launþegahreyfingarinnar hins vegar stigið fram og sagst muni fara fram á miklar launahækkanir, í takt við tugprósenta launahækkanir lækna. Því bendi margt til þess að í átök stefni á vinnumarkaði.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, að enn sé stefnt að því að skrá fyrirtækið á markað á næstunni. Hins vegar gætu kjaradeilur og fleiri þættir, svosem gjaldmiðlamál, olíumál og aflétting hafta, frestað skráningu.