Mannvit hlaut í gær  viðurkenningu Vinnueftirlitsins fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf á ráðstefnu í tilefni af Evrópsku vinnuverndarvikunni sem nú stendur yfir. Vinnueftirlitið tilnefndi Mannvit enn fremur fyrir Íslands hönd til Evrópuverðlauna fyrir góða starfshætti á sviði vinnuverndar í flokki fyrirtækja með fleiri en 100 stafsmenn. Þau verðlaun verða veitt næsta vor.

Mannvit
Mannvit
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Fram kemur í tilkynningu frá Mannviti, að markmiðið með vinnuverndarvikunni er að vekja athygli fólks á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari. Áherslan í ár og á næsta ári er sameiginleg ábyrgð stjórnenda og starfsmanna á vinnuvernd. Stjórnendur eru hvattir til þess að veita forystu í vinnuverndarmálum og lagt er að starfsfólki að taka  virkan þátt í vinnuverndarstarfinu.

Þá segir að við val á fyrirmyndarfyrirtæki Vinnueftirlitsins hafi verið tekið tillit til þess að Mannvit er með vottað öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlega staðlinum OHSAS 18001. Þá eru í vinnuverndar- og öryggisstefnu fyrirtækisins sett fram skýr markmið um að starfsmenn hljóti ekki skaða í starfi fyrir Mannvit, að ótryggar aðstæður fyrirfinnist ekki og að allir komi heilir heim. Jafnframt er mikil áhersla lögð á bætta öryggisvitund, bæði meðal starfsfólks og viðskiptavina.