Yfirvöld eru enn að rannsaka leka á gögnum um málefni hælisleitenda í innanríkismálinu og er málinu því enn ekki lokið. Þegar fjölmiðlar fjölluðu um málið sögðu þau um leka á minnisblaði að ræða. Innanríkisráðuneytið segir ekki um minnisblað að ræða heldur samantekt ráðuneytisins sem alvanalegt sé að teknar séu saman. Í samantektinni voru upplýsingar um einn hælisleitanda.

Samantekin var vistuð á opnu drifi tölvukerfis innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið tekur undir þá gagnrýni að vinnsla og geymsla slíkra gagna eigi ekki að fara fram á opnu drifi og hefur þeirri vinnureglu verið breytt til að tryggja aukið öryggi gagna.

Í síðustu viku staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu lögreglu að fréttastjóri fréttavefjar Morgunblaðsins, mbl.is, eigi að upplýsa hver lak upplýsingunum úr ráðuneytinu.

„Samantektir ráðuneytisins eins og sú sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar eru ekki minnisblöð og hafa ekki slíka stöðu í ráðuneytinu þrátt fyrir að einstaka fjölmiðlar og einstaklingar hafi fjallað um málið með þeim hætti. Slíkar samantekir um feril mála eru alvanalegar í stjórnsýslunni og sú samantekt sem í umræðunni hefur verið er í engu frábrugðin þessari almennu vinnureglu. Fól hún einungis í sér hefðbundna lýsingu á staðreyndum máls, röð afgreiðslna undirstofnana ráðuneytisins og rök lögmanna,“ segir í umfjöllun um málið á vef innanríkisráðuneytisins.

Ráðuneytið segir að í samantektinni hafi ekki verið meiðandi ummæli, líkt og einhverjir hafa haldið fram.