*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 19. janúar 2017 13:20

Vinnum meira fyrir ríkið en áður

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir fyrirferð hins opinbera í hagkerfinu vera skelfilega.

Snorri Páll Gunnarsson
Halldór Benjamín Þorbergsson á Skattadeginum í morgun.
Haraldur Guðjónsson

„Ef við tökum einstakling með meðaltekjur og skoðum hversu mikið hann greiðir í tekjuskatt er staðan sú, að einstaklingur á árinu 2015, sem mætti í vinnuna klukkan 8 að morgni, var að vinna fyrir ríkissjóð eða hið opinbera til u.þ.b. 10:17. Þetta hefur aukist um 15 mínútur frá árinu 2009, sem jafngildir 11 vinnudögum á ári.“

Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á Skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins í morgun. Íslendingar vinna því meira fyrir hið opinbera heldur en áður. 

Halldór, sem var einn fimm ræðumanna, flutti erindi undir fyrirskriftinni Tékklisti fyrir fjármálaráðherra að loknu opnunarávarpi Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, en þar skýrði fjármálaráðherra frá helstu áherslunum í skattastefnu stjórnvalda. Erindi Halldórs var um stöðuna í íslensku skattkerfi, eiginleika góðs skattkerfis og hvernig hægt væri að skapa gott skattkerfi hér á landi.

Opinbera báknið mjög bólgið

„Ísland er háskattaland og við megum ekki gleyma því að ef við berum saman heildarskatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu innan allra OECD ríkjanna kemur í ljós að við erum alveg í efsta flokknum,“ sagði Halldór.

„Við sjáum þetta líka á útgjaldahlið hins opinbera. Opinbera báknið er einfaldlega mjög bólgið og það er ekkert rými til að auka frekar útgjöld. Útgjöld hins opinbera árið 2014, þegar búið er að leiðrétta fyrir ellilífeyri og atvinnuleysisbætur, voru rétt um 42% af VLF. Þetta eru skelfilegar tölur.“

Benti Halldór á að ríkisútgjöld væru að vaxa hraðar nú en í síðustu uppsveiflu. „Frá árinu 1998 hafa skatttekjur hins opinbera á mann verið að nálgast sömu tölur og voru á árunum 2006 og 2007 ... Afgangur af fjárlögum er agnarsmár miðað við hvar við erum stödd í hagsveiflunni. Við erum annað hvort á toppi hagsveiflunnar eða mjög nærri honum.

Menn eiga að leggja til hliðar þegar vel árar, því mögru árin munu svo sannarlega koma. Útgjöld eru að vaxa hraðar, sé litið þrjú ár aftur í tímann, heldur en þau gerðu í síðustu uppsveiflu til ársins 2007. Þetta er áhyggjuefni fyrir alla, ekki síst nýjan fjármálaráðherra.“

Einnig benti Halldór á að ríkið hafi tilhneigingu til framúrkeyrslu í útgjöldum. „Frá frumvarpi til fjárlaga undanfarin ár, og síðan til ríkisreiknings rúmlega ári síðar, er umframkeyrslan að meðtaltali 7%. Vöxturinn frá samþykkt fjárlaga til ríkisreiknings er 5%. Skýringar fyrir þessu má fyrst og fremst leita vegna framúrkeyrslu ríkisstofnana. Ef þetta mun halda áfram miðað við síðastliðin fimm ár munu heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2017 vera 31% af landsframleiðslu, sem er nýtt met frá árinu 2003.“

Í skattkerfinu hafa síðan orðið fleiri breytingar undanfarin ár til hækkunar frekar en til lækkunar. „Þetta er eins konar Orwells-martröð þegar horft er átta ár aftur í tímann. Það eru 211 breytingar sem átt hafa sér stað á skattkerfinu ... Flestar breytingarnar eru til hækkunar.

Það er vonandi að ný ríkisstjórn, sem að mörgu leyti tekur við góðu búi, geti reynt að snúa þessari öfugþróun við, þar sem að lungi skattbreytinga verði til lækkunar en ekki til hækkunar,“ sagði Halldór. Einnig benti Halldór á að jaðarskattar hafi hækkað verulega hér á landi á árunum eftir hrun.

Stjórnvöld eiga ekki að finna upp hjólið

Halldór fjallaði næst um hið æskilega skattkerfi. Nefndi hann einföldun, gagnsæi, skilvirkni og fyrirsjáanleika.

Til að ná þeim markmiðum benti Halldór á nokkrar tillögur frá Samráðsvettvangi um aukna hagsæld: að tekin verði upp einstaklingsframtöl, barnabótakerfinu verði breytt verulega þannig að barnabætur verði réttur barnsins, að vaxtabótakerfi verði lagt niður og að stuðningur til lágtekjuhópa verði aukinn með útborganlegum persónuafslætti þannig að 90% Íslendinga myndu greiða skatt í neðra skattþrepinu (25%).

Einnig þyrfti að einfalda virðisaukaskattskerfið. Jákvætt væri að lækka ætti tryggingagjaldið, „ígildi kostnaðar fimmtánda starfsmannsins sem aldrei mætir í vinnuna og leggur ekkert af mörkum til fyrirtækisins,“ sagði Halldór. Gjaldið þyrfti þó að taka mið af hagsveiflunni. Loks ætti fjármagnstekjuskattur að miða við raunvexti en ekki nafnvexti. 

Tékklisti Halldórs fyrir fjármálaráðherra var því þessi: lækka skatta, draga úr umsvifum ríkisins, koma í veg fyrir að útgjöld grundvallist á góðæristekjum, og tryggja að ef til stæði að hækka skatta, að þá þyrfti að lækka aðra skatta á móti. 

Þegar Halldór lauk erindi sínu stóð fjármálaráðherra á fætur og kvaddi fundargesti. „Fundarstjóri, ég ætla nú bara að þakka ykkur fyrir að vinna áfram svona hörðum höndum, en nú þarf ég að fara og vinna fyrir ykkur.“

Stikkorð: Deloitte SA Skattadagur skattkerfi ríkisútgjöld