Vinnumálastofnun lýsir undrun sinni á ályktun miðstjórnar ASÍ og þeim „aðdróttunum og innihaldslausu ásökunum sem þar eru settar fram í garð stofnunarinnar," þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stofnuninni.

„Þar er því gert skóna að Vinnumálastofnun hafi látið hjá líða að sinna lögbundnum skyldum sínum og að hún beri ábyrgð á þeim aðstæðum sem áhafnarmeðlimir hjá Primera Air Nordic og flugfarþegar eru nú í um allan heim. Fullyrðingar þessar eru með ólíkindum. ASÍ var fullkunnugt um að Vinnumálastofnun hafði hvorki lagaheimildir né lagaleg úrræði til að hafa afskipti af starfsemi fyrirtækisins hér á landi," segir í tilkynningunni.

„Stofnunin hefur tekið þátt í samstarfi m.a. með aðilum vinnumarkaðarins um nauðsynlegar breytingar á lögum í þeim tilgangi að sporna gegn félagslegum undirboðum. Hafa þær breytingar meðal annars snúið að því að auka eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar, t.d. með heimild til að leggja á sektir á fyrirtæki sem veita ekki umbeðnar upplýsingar og/eða verða við öðrum kröfum stofnunarinnar."

Í lokinn kemur fram að þvert á það sem standi í ályktuninni sinnir stofnunin eftirlits hlutverki sínu á vinnumarkaði og að orðræða af þessu tagi styrki ekki baráttuna gegn slæmri framkomu á vinnumarkaði.