*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 1. október 2019 11:11

Vinnumarkaður gefur eftir

Samkvæmt Hagsjá Landsbankans eru fleiri merki um dalandi styrkleika vinnumarkaðar.

Ritstjórn
Eins og reiknað var með hefur vinnumarkaður gefið eftir í haust.
Haraldur Guðjónsson

„Uppsagnir í september voru verulega fleiri en hefur verið í langan tíma, bæði nokkrar stórar og svo fleiri minni. Það er því líklegt að afleiðingar þess muni koma fram í tölum um atvinnuleysi á næstu mánuðum,“ segir í nýrri Hagsjá sem birtist á vef Landsbankans í morgun. 

„Atvinnuleysi er að aukast. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi 4,2% í ágúst og jókst úr 2,5% í júlí. Atvinnuleysi í ágúst í fyrra var 2,5%. Skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar var 3,5% í ágúst og 3,4% í júlí. Skráð atvinnuleysi í ágúst 2018 var 2,3% og hefur það því aukist um 1,2 prósentustig á einu ári. Meðaltal skráðs atvinnuleysis síðustu 12 mánuði var 3,1% sem er sama tala og mælingar Hagstofunnar sýna,“ segir í inngangi greinarinnar. 

„Starfandi fólki fækkaði um tæplega 13.000 manns milli júlí og ágúst sem er óvenju mikil sveifla. Starfandi voru 6.800 færri nú í ágúst en var í ágúst 2018. Sveiflur milli mánaða í könnun Hagstofunnar eru oft miklar og sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða fækkaði fjölda starfandi um 0,2% milli júlí og ágúst. Starfandi fólki á vinnumarkaði er því ekki að fjölga mikið eins og reyndin hefur verið síðustu misseri.“ 

„Atvinnuþátttaka í ágúst var 79,5% og minnkaði um 3,9 prósentustig frá júlímánuði og um 2,8 prósentustig frá ágúst í fyrra. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um 0,4 prósentustig frá ágúst 2018 til sama tíma 2019 og hefur því einnig farið minnkandi á þann mælikvarða.

Vikulegur vinnutími var að jafnaði 40,4 stundir í ágúst sem óbreytt frá fyrra ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í ágúst 38,9 stundir sem er 0,3 stundum styttri en í ágúst 2018. Þessi stærð er óbreytt frá júlí og þetta er stysti vinnutíminn á þennan mælikvarða í fjölda ára.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman mánuð fyrir mánuð jókst vinnuaflsnotkun nær samfellt frá árslokum 2017, nema í febrúar í ár. Nú í júlí minnkaði vinnuaflsnotkun (eða fjöldi unninna stunda) um 0,4% frá í júlí 2018 og nú í ágúst var vinnuaflsnotkun 2,9% minni en í ágúst í fyrra. Starfandi fólki fækkaði um 2,9% á tímabilinu, og vinnutími var óbreyttur milli ára. Fækkun unninna stunda skýrist því einvörðungu af fækkun starfandi fólks á vinnumarkaði.

Fyrr á árinu var reiknað með auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Tölur Hagstofunnar hafa sveiflast mikið að vanda, en langtímaþróunin er hæg upp á við. Skráð atvinnuleysi er nú 0,8 prósentustigum hærra en það var í lok ársins 2018 og langtímaþróunin því einnig upp á við þar. Vinnuaflsnotkun í ágúst var nokkuð minni en fyrir ári síðan.“ 

Stikkorð: Vinnumarkaður Hagsjá