*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Innlent 7. desember 2017 09:53

Vinnumarkaður á toppi hagsveiflunnar

Hagfræðideild Landsbankans telur að fjölgun vinnustunda sé vanmetin sem valdi skekkju í framleiðniútreikningi.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Í nýrri greiningu hagfræðideildar Landsbankans er vinnumarkaðurinn sagður vera á toppi hagsveiflunnar. Vinnutími hafi verið að styttast samkvæmt vinnumarkaðskönnunum og atvinnuleysi minnkað. Þá segir að margt bendi til þess að vöxtur vinnuaflseftirspurnar hafi náð hámarki þó vinnumarkaðurinn verði áfram kröftugur.

Tölur um búferlaflutninga bendi til áframhaldandi fjölgunar erlends starfsfólks í landinu þótt því hafi upp á síðkastið fjölgað hægar en á öðrum ársfjórðungi. Tölu Vinnumálastofnunar sýni að starfsfólki sem er hér á vegum starfsmannaleiga haldi áfram að fjölga líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Þá bendir hagfræðideildin á að niðurstöður vinnumarkaðskönnunar hafi að undanförnu ekki verið í samræmi við almenna tilfinningu fyrir vinnumarkaðnum sem virðist vera á fleygiferð. Úrtak könnunarinnar nái eingöngu til fólks sem sé í þjóðskrá og með lögheimili á Íslandi. Hluti erlenda vinnuaflsins sé á landinu í tiltölulega skamman tíma og því ekki í þjóðskrá. Þannig sé líklegt að nokkur hluti erlends vinnuafls sem komi hingað til lands sé ekki talinn með eða komi seint fram í opinberum tölum.

Þetta sé sérstaklega slæmt ef litið er til þess hversu mikilvægar mælingar á fjölda vinnustunda séu við mat á framleiðni. Aukning á framleiðni sé lykilhugtak fyrir launaþróun og ef ætlunin sé að nálgast norrænar aðferðir við launasetningu verði að vera hægt að treysta mælingum á framleiðni. Vanmat á fjölgun heildarvinnustunda feli þannig í sér ofmat á vexti framleiðni. „Hagstofan telur þannig að framleiðni vinnuafls hafi aukist um 4,3% í fyrra eftir mjög hægan framleiðnivöxt nokkur ár þar á undan. Samskonar vanmat á fjölgun heildarvinnustunda nú mun einnig sýna að framleiðnivöxtur vaxi meira í ár en ella. Mat sem byggir á óáreiðanlegum gögnum er engum til gagns,“ segir í niðurlagi greiningarinnar.

Greining hagfræðideildar Landsbankans í heild sinni.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is