Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og hefur nú verið ráðin verkefnastjóri Ungra athafnakvenna (UAK), en hún er fyrsti starfsmaður félagsins. Hún kemur af fullum krafti inn í nýja starfið en í nóvember heldur félagið alþjóðlegt fótboltamót sem á að vera hreyfiafl fyrir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. „Félagið er í mikilli uppbyggingu en ákveðið var að ráða starfsmann til að geta svarað allri eftirspurn um samstarf og aðkomu félagsins. Ég tel að þessi mikla athygli sem félagið hefur fengið sýni stöðuna sem samfélagið er á í dag. Við viljum geta gefið ungu fólki tækifæri. UAK er þétt tengslanet kvenna með ólíka bakgrunni og áhugasvið sem vinna að sameiginlegu markmiði - jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun."

Áður en Eva tók við nýja starfinu hafði hún verið búsett í Hollandi í þrjú ár þar sem hún stundaði grunn- og meistaranám við Háskólann í Amsterdam. Hún var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir tæpu ári síðan og hefur verið í stýrihópi á vegum stjórnvalda um þátttöku Íslands í Kynslóð jafnréttis.

Eva segist líta á vinnumarkaðinn sem langhlaup og reynir því að hugsa vel um sig. Hún helgar því átta tímum svefni, átta tímum vinnu og átta tímum í leik og að lifa. Einnig leggur hún mikið upp úr sjálfsvinnu með það að markmiði að verða besta útgáfan af sjálfri sér. Hún kveðst spennt fyrir því að láta til sín taka á vinnumarkaði og starfa við þau málefni sem henni þóttu hvað áhugaverðust í náminu.

Finna má viðtalið í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .