Greiningardeild Arion banka telur að spenna á vinnumarkaði fari dvínandi. Það vekur spurningar um hversu vel í stakk búinn vinnumarkaðurinn sé til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Í greiningunni kemur fram að flutningar erlends vinnuafls hafi haft sveiflujafnandi áhrif á vinnumarkaðinn undanfarin ár og í ljósi þess að hlutfall erlends vinnuafls af heildarvinnuafli hefur aldrei verið hærra ætti viðbragðsgetan að vera góð.

Auk þess er atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16-24 ára mjög há í sögulegu samhengi sem bætir aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins enn frekar. Þetta skýrist af því að unga fólkið hefur tilhneigingu til að setjast á skólabekk þegar að það kreppir að og dempa þannig höggið á vinnumarkaðinn.