*

mánudagur, 25. janúar 2021
Erlent 6. nóvember 2020 15:35

Vinnumarkaðurinn tekur við sér

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum dróst meira saman en greinendur höfðu gert ráð fyrir.

Ritstjórn
Bæði hefur atvinnuleysi í Bandaríkjunum dregist hratt saman og atvinnuþátttaka hefur aukist.
EPA

Í lok október lækkaði atvinnuleysi í Bandaríkjunum niður í 6,9% en greinendur höfðu gert ráð fyrir 7,7% atvinnuleysi. 638 þúsund störf sköpuðust, utan landbúnaðar, en 530 þúsund nýjum störfum hafði verið gert ráð fyrir. Í september var atvinnuleysi vestanhafs 7,9%.

Samhliða minnkandi atvinnuleysi jókst atvinnuþátttaka um 0,3 prósentustig í 61,7%. Mælikvarði á fjölda þeirra sem vilja vinna meira en fá ekki aukið starf, hvort sem aðilarnir fái einungis hlutastarf eða vilja vinna en eru ekki skráðir atvinnulausir, sýndi einnig samdrátt milli mánaða, úr 12,8% í 12,1%. CNBC greinir frá.

Um 900 þúsund störf í einkageiranum voru sköpuð á milli mánaða en störfum á vegum ríkisins fækkuðu um 268 þúsund. Störfum tengd afþreyingu og gistingu, svo sem hjá hótelum og farfuglaheimilum, jukust mest eða um 271 þúsund. Þar af jukust störf tengd krám og veitingastöðum um 192 þúsund.

Tæplega fimmtíu milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveiruna. Flest tilfelli hafa greinst í Bandaríkjunum eða um tíu milljón tilfelli. Rúmlega 240 þúsund manns hafa látið lífið sökum faraldursins í Bandaríkjunum.