Ákvörðun stjórnvölda um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að mætir andstöðu forsvarsmanna Samtaka iðnaðarins (SI), Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins(SA) sem hafa lýst þeirri skoðun að best væri að klára aðildarviðræður.

Í samtali við RÚV segir Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI, að með þeirri ákvörðun að slíta viðræðunum fari „ríkisstjórnin gegn stórum hópi iðnfyrirtækja sem vill að það sé skoðað til hlítar hvort samkeppnishæfni þeirra sé betur tryggð innan eða utan ESB.“

„Við höfum ekki verið í góðri stöðu. Þetta snýst um samkeppnishæfni, hvernig löðum við að fjármagn og fjárfesta og hvernig gerum við ísland aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki. Okkur hefur ekki gengið nógu vel, við þurfum að skoða alla möguleika. Afhverju að loka möguleikum áður en þeir hafa verið skoðaðir, ég spyr,“ segir Svana.

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs tekur í sama streng í viðtali við RÚV. „Við svo sem vorum að tala um þetta á viðskiptaþinginu, hvernig rekstrarumhverfið er fyrir fyrirtæki sem vinna á alþjóðamörkuðum og eru í alþjóðlegum viðskiptum - hvað það er erfitt - og ég get ekki betur séð en að þetta muni gera það enn erfiðara.“