Katrín var ein fjögurra kvenna sem þátt tóku í ráðstefnu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í síðustu viku um þá lærdóma sem draga má af reynslu Íslands í eftirmála kreppunnar. Með Katrínu í hópi mælenda á ráðstefnunni voru að öðrum ólöstuðum Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman og Martin Wolf, aðstoðarritstjóri breska viðskiptablaðsins Financial Times.

Katrín var ung að árum þegar hún ákvað að fylgja í fótspor beggja eldri systkina sinna og fara í háskólanám. Hún fæddist í Connecticut í Bandaríkjunum árið 1965 en þar var faðir hennar, Ólafur Örn Arnarson, í sex ára sérfræðinámi í læknisfræði. Hún er yngsta barn foreldra sinna af þremur. Hún var fjögurra ára þegar fjölskylda hennar flutti aftur heim eftir nám Ólafs, sem undir það síðasta var kominn til Cleveland Clinic, og gekk Katrín í skóla hér þar til stúdentsprófi lauk. Hún prófaði fyrir sér í tölvunarfræðum við Háskóla Íslands áður en hún ákvað að fara aftur til bernskuslóða vestanhafs í framhaldsnám. Systkini hennar bæði eru hins vegar verkfræðingar, systir sem er fimm árum eldri býr hér, en bróðir hennar sem er fjórum árum eldri hefur verið búsettur í Los Angeles í Bandaríkjunum um árabil.

Allt fyrir hagfræðina

Katrín er ógift og barnlaus og á engin gæludýr. Vinnunni sinnir hún af þeim mun meiri eljusemi.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja hagfræði og efnahagsmál eiga hug hennar og hjarta og séu fræðin helstu áhugamál hennar. Þeim hef- ur hún sinnt hjá helstu stofnunum landsins hverju sinni; hjá fjármálaráðuneytinu, Þjóðhagsstofnun allt þar til hún var lögð niður við aldamótin, og Landsbankanum.

Meira um Katrínu má lesa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.