Teljast ferðalög starfsmanna í þágu vinnuveitanda, til vinnustaðar sem ekki er hin hefðbunda starfstöð hans, til vinnutíma þegar þau falla utan hefðbundins dagvinnutíma? Þetta er spurning sem lögð verður fyrir EFTA-dómstólinn á morgun í máli starfsmanns Samgöngustofu gegn íslenska ríkinu.

Málið varðar túlkun á vinnutímatilskipun Evrópuþingsins sem innleidd var í EES-samninginn árið 2003. Við innleiðingu tilskipunarinnar á Íslandi sama ár var gerður fyrirvari við nokkrar greinar hennar. Þar var vinnutími skilgreindur sem sá tími sem starfsmaður er við störf, til taks fyrir atvinnurekanda og innir af hendi vinnuskyldu sína.

Umræddur starfsmaður Samgöngustofu er flugvirki og með hefðbundna átta tíma vinnuskyldu. Samkvæmt kjarasamningi telst það yfirvinna ef vinna er innt af hendi utan hefðbundins dagvinnutíma. Sökum starfs síns þarf hann stundum að ferðast út fyrir landssteinana til eftirlitsstarfa, til að mynda við nýskráningu loftfara hér á landi eða lofthæfisskoðanir á erlendri grund.

Í kjarasamningnum er kveðið á um tilteknar álagsgreiðslur sökum vinnuferða erlendis en flugvirkjar Samgöngustofu telja það ekki fullnægjandi. Málinu var því stefnt fyrir dóm en í því er krafist að tími á ferðalagi til og frá annars vegar Ísrael og hins vegar Sádi-Arabíu skuli teljast til vinnutíma. Er þá á því byggt að tíminn þegar lagt var af stað til Keflavíkur og þar til komið er á hótel úti skuli teljast til vinnutíma.

Við meðferð málsins í héraði óskaði lögmaður flugvirkjans þess að óskað yrði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Því hafnaði héraðsdómur en Landsréttur sneri þeim úrskurði við. Áður en sú beiðni hafði verið lögð fram var farið fram á það að dómari málsins viki sæti sökum skoðana hans á reglum Evrópuréttarins og við innleiðingu þriðja orkupakkans. Þeirri kröfu var hafnað.

Málflutningur fer fram fyrir EFTA-dómstólnum á morgun en auk flugvirkjans og ríkisins munu fulltrúar Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar ESB taka til máls. Tvær síðarnefndu stofnanirnar telja að fallast eigi á túlkun flugvirkjans þannig að ferðalögin geti talist til vinnutíma.