Mikil uppbygging virðist eiga sér stað í samfélaginu ef tekið er mið af gríðarlegri aukningu í innflutningi vinnuvéla til landsins á síðasta ári. Samkvæmt greiningu Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka, jókst heildarinnflutningur vinnuvéla um 31,3% á milli ára og nam 1.540 tækjum árið 2016.

Að mati sérfræðinga Ergo er enn endurnýjunar þörf í vinnuvélaflota landsmanna í ljósi þess að meðalaldurinn er frekar hár. Enn er flutt inn talsvert af notuðum vinnuvélum í samanburði við árin fyrir hrun þó hlutfallið hafi farið lækkandi undanfarin ár. Í fyrra voru 28% innfluttra vinnuvéla notaðar en hlutfallið var 50% árið 2011. Fyrir hrun voru hins vegar nánast einvörðungu fluttar inn nýjar vinnuvélar að sögn Jóns Hannesar Karlssonar, framkvæmdastjóra Ergo.

„Þróunin er meira í átt að nýrri vinnuvélum, en hlutfall notaðra véla er þó enn nokkuð hátt samanborið við árin fyrir hrun. Þá kom meira inn af nýjum tækjum en nú er þetta meiri blanda og það yngir þá ekki eins upp flotann okkar. Mér finnst menn horfa skynsamlega á innkaup núna og hugsa lengra fram í tímann,“ segir Jón Hannes. Hann býst þó við því að innflutningur á nýjum vélum komi til með að aukast á næstunni.

„Krónan hefur styrkst mikið og þá lækkar auðvitað verð á nýjum vélum. Innflutningur verður sterkari þegar krónan styrkist og eðlilegt er að menn kaupi nýjar vélar ef þær eru orðnar ódýrari. Ef menn finna góð notuð tæki erlendis munu þeir auðvitað kaupa þau en ég held við munum frekar sjá aukningu í nýjum tækjum. Menn eru alltaf að vinna í að gera svona tæki hagkvæmari í rekstri.“

Hann segir ljóst að aukinn innflutningur endurspegli að miklu leyti vöxtinn í þjóðfélaginu og hvernig atvinnulífið er að taka við sér. Ekki er einungis um að ræða aukningu í byggingakrönum heldur einnig vinnulyftum, ýmsum tegundum lyftara, dráttarvélum og fleira.

Enginn byggingakrani fluttur inn 2009 til 2013

Fjöldi innfluttra krana árið 2016 jókst um 41% frá árinu áður en í byggingakrönum var fjölgunin 16%. Nýjum byggingakrönum fjölgaði að vísu úr 23 í 34 en notuðum fækkaði hins vegar úr átta í tvo. Fjöldi byggingakrana er gjarna talinn gefa vísbendingu um hitann í hagkerfinu og er jafnvel stundum talað um hina svokölluðu „byggingakranavísitölu“ sem á að gefa til kynna hvar við erum stödd í hagsveiflunni.

„Það var enginn byggingakrani fluttur inn til landsins frá árunum 2009 til 2013. Við bárum saman fjölda innfluttra krana hvert ár við fjölda nýrra íbúða í byggingu á sama ári og árið 2007 er byrjað á 4.446 íbúðum á sama tíma og innflutningur nær hámarki í nýjum krönum. Þetta hélt áfram fyrri hluta ársins 2008 en seinni hlutann datt botninn algerlega úr. Á síðasta ári voru fluttir inn 34 nýir kranar og við áætlum að um 1.800- 2.000 íbúðir hafi verið byggðar,“ segir Jón Hannes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .