Fyrirtækið heitir Náttskuggi og við erum að framleiða Ljótu kartöflurnar en ég stofnaði það í byrjun árs,“ segir Viðar Reynisson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Ljótu kartöflurnar voru nýlega valdar sem Matarsproti ársins af Sjávar- og landbúnaðarklösunum.

Kartöfluflögurnar eru þær fyrstu sinnar tegundar en þær eru sneiddar niður úr íslenskum kartöflum en hingað til hefur öll íslensk framleiðsla á kartöflusnakki verið úr mjöli eða öðrum efnum sem er alla jafna innflutt að sögn Viðars.

„Allar flögur sem hafa verið á markaðnum hér heima eru innfluttar. Ástæðan fyrir því er sú að íslenskar kartöflur henta ekki vel í svoleiðis vörur því þær innihalda svo mikla sterkju. Ég þurfti að finna út úr því hvernig ég gæti náð sterkjunni úr þeim áður en ég gat byrjað að framleiða. Það var dálítill hausverkur. Hugmyndin kviknaði fyrir löngu og ég hef verið að vinna að þessu í fjögur til fimm ár, þó með pásum og samhliða vinnu,“ segir Viðar.

Hugmyndin varð til í Hornafirði þar sem Viðar hefur dvalið á sumrin með fjölskyldu sinni en var lengi í vinnslu því hann átti erfitt með að samþykkja að íslenska repjuolíu væri ekki hægt að nota í framleiðsluna. „Hugmyndin kviknaði eiginlega þegar ég sá að bændurnir voru farnir að gera tilraunir með repjuolíu. Þá kviknaði hún því allt hráefnið var komið til þess að búa til kartöfluflögur. Það sem hafði alltaf vantað var repjuolía.

Við höfum kartöflurnar, saltið og ýmis krydd og þarna var allt í einu komið lokahráefnið. Upphaflega hugmyndin var að gera al­ íslenskar kartöfluflögur. Ástæð­an fyrir því hversu langan tíma það tók að koma þessu á koppinn var að ég var að þrjóskast við það að hafa þær alíslenskar en á endanum þurfti ég að gefa mig með það að nota íslensku repjuolíuna því hún er svo bragðsterk og þolir illa steikingu við mikinn hita. Þannig að ég varð að gefa það eftir en að öðru leyti er þetta íslenskt hráefni,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .