Í kjölfar tveggja hryðjuverkaárása íslamista í Bæjaralandi í síðasta mánuði hafa vinsældir Angelu Merkel kanslara Þýskalands lækkað skart.

Höfðu þær lækkað um 12 prósentustig niður í 47% sem eru næstminnstu vinsældir sem hún hefur mælst með síðan núverandi kjörtímabil hófst árið 2013. Fyrir mánuði síðan sögðust 59% Þjóðverja vera ánægðir með störf hennar, en það var aukning um 9 prósentustig síðan í júní sem og bestu fylgistölur sem hún hefur haft síðan í september 2015.

Óánægja með stefnu í málefnum innflytjenda

Sýna niðurstöðurnar að mikil óánægja er með stefnu hennar í málefnum innflytjenda, með einungis 34% svarenda sem sögðust vera ánægðir eða mjög ánægðir með stefnu hennar í málaflokknum.

Það er lægsta hlutfall sem mælst hefur síðan ARD fór að spyrja þeirrar spurningar í október 2015.

Sagði Þýskaland opið fyrir flóttamenn

Síðasta sumar lýsti Merkel því yfir að landamæri Þýskalands væru opin og nýttu sér það tugir þúsunda flóttamanna sem þá flykktust í gegnum Evrópu, oft eftir erfið ferðalög frá löndum eins og Sýrlandi og Írak.

Áhyggjur af því hve vel gangi að aðlaga flóttamennina hafa þó aukist síðan, sérstaklega í kjölfarið á því að ungur Afgani réðst á farþega í lest í Würsburg, og særði fimm og Sýrlendingur sprengdi sjálfan sig í loft upp í Ansbach og særði 15. Lýstu hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, (ISIS/Daesh) yfir ábyrgð á árásunum.

Vinsældir harðasta gagnrýnenda hennar aukast

Jafnframt sýna kannanirnar mikla hækkun vinsælda hennar harðasta gagnrýnenda, Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjararalands, en stuðningur við hann jókst um 11 prósentustig og er það nú 44%.

Seehofer er leiðtogi CSU sem er bæverskur systurflokkur CDU, flokks kanslarans, en hann hefur kallað eftir hámarki á innflutning og að landamæraeftirliti verði komið á, á ný. Angela Merkel hefur hafnað hvoru tveggja.