Fasteignamarkaðir í þróuðum ríkjum hafa margir hitnað nokkuð frá því að faraldurinn hófst. Víða reyna stjórnvöld nú að bregðast við þróun íbúðaverðs, til að koma í veg fyrir aukna kerfisáhættu og styðja við fyrstu kaupendur, með hinum ýmsu stýritækjum að aðgerðum. Hugmyndir um innleiðingu leiguþaks, þ.e. reglum um hámarksleigu, virðast nú njóta vinsælda meðal ákveðinna Evrópuríkja. Margir hagfræðingar eru mótfallnir leiguþaki þar sem slík aðgerð getur dregið úr hvata til fjárfestingar á leigumarkaði.

Ríkisstjórn Spánar talar nú fyrir eftirliti með húsaleigu sem hluta af fyrirhugaðri húsnæðislöggjöf sem á að verja leigjendur gegn fjárfestingasjóðum og stórum leigufélögum. Það felst m.a. í að borgar- og sveitarstjórnir geti sett þak á leigu hjá stórum leigusölum, þ.e. þeim sem eiga meira en tíu fasteignir, á svæðum þar sem leiguverð hefur hækkað umfram verðbólgu.

Sjá einnig: Inngrip um allan heim

Leiguverð á Spáni hefur hækkað um 40% á síðustu fimm árum, þrátt fyrir hjöðnun í faraldrinum. Viðfangsefnið þykir nokkuð eldfimt en atvinnuleysi meðal ungs fólks á Spáni mælist yfir 30% og meira en helmingur fólks á aldrinum 25-29 ára býr hjá foreldrum sínum.

Ione Belarra, félagsmálaráðherra Spánar, sagði að nýja löggjöfin myndi koma jafnvægi á markaðinn sem hafi tekið miklum breytingum eftir evrópsku skuldakreppuna fyrir áratug síðan og innkomu erlendra fjárfesta. Fjárfestingasjóðurinn Blackstone er nú stærsti leigusali á spænska fasteignamarkaðnum með um 30 þúsund íbúðir.

Margir gagnrýna þó nýju löggjöfina og telja að hún muni draga úr hvatanum á fjárfestingu í geiranum. Meðeigandi hjá EY á Spáni hefur sagt að af þeim 28-29 þúsund leiguíbúðum sem byggingaraðilar eru með í pípunum sé búið að setja 8 þúsund á ís þar til áhrif löggjafarinnar liggja nánar fyrir.

Meðal annarra tillagna ríkisstjórnarinnar er að bjóða Spánverjum í lægsta tekjuhópinum á aldrinum 18-35 ára niðurgreiðslu á leiguverði um allt að 250 evrur, eða sem nemur 37 þúsund krónum, á mánuði.

Eignarnám í Berlín

Nokkuð hefur verið rætt um stöðu mála í Berlínarborg en löggjafarþing borgarinnar lögfesti leiguþak árið 2019 á öllum íbúðum byggðum fyrir 2014. Hæstiréttur Þýskalands komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í apríl síðastliðnum að þakið stæðist ekki stjórnarskrá því slík aðgerð skyldi aðeins vera á höndum alríkisyfirvalda.

Sjá einnig: Hefur enga trú á aðgerðum Berlínar

Þess í stað var ráðist í ráðgefandi kosningu um hvort taka ætti ríflega 200 þúsund íbúðir í eigu leigufélaga eignarnámi en íbúar Berlínar samþykktu tillöguna í september síðastliðnum. Ágreiningur ríkir þó um hvort aðgerðin standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritnu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .