Umsóknum í MBA nám í heiminum fækkaði um 22% í ár frá árinu á undan, að því er segir í frétt Wall Street Journal. Er þetta fjórða árið í röð þar sem umsóknum í MBA nám fækkar. Í fyrra nam fækkunin 10% frá árinu 2010. Eru tölurnar fengnar frá starfsfólki 744 viðskiptafræðideilda í háskólum víðs vegar um heiminn.

Jafnvel virtustu skólar hafa þurft að sætta sig við mikla fækkun umsókna og er dæmi tekið af Columbia háskóla í New York þar sem umsóknir í ár voru 19% færri en í fyrra. Í Stanford háskóla í Kalíforníu fækkaði umsóknum 1,5%. Alls hefur umsóknum fækkað í 62% af þeim skólum sem tóku þátt í könnuninni. Myndin er önnur í Asíu, þar sem umsóknum fjölgaði hjá 80% háskólanna sem tóku þátt. Í Evrópu er staða háskólanna eitthvað að braggast, en umsóknum fjölgaði hjá 37% evrópskra háskóla, en í fyrra var hlutfallið 22%.