*

laugardagur, 23. janúar 2021
Innlent 18. júlí 2020 19:01

Vinsældirnar komið á óvart

Aðstoðarhótelstjóri á Icelandair Hótel Hamri segist vera gífurlega ánægður með hversu vel hefur gengið í rekstri hótelsins í sumar.

Magdalena A. Torfadóttir
Guðveig Lind Eyglóardóttir, aðstoðarhótelstjóri hjá Icelandair Hótel Hamar.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, aðstoðarhótelstjóri hjá Icelandair Hótel Hamar, segist vera afar ánægð með hvernig sumarið hafi gengið. „Það er óhætt að segja að aðsóknin á hótelið hafi verið mjög góð. Það gæti náttúrulega helgast af því að við erum með glæsilegan átján holu golfvöll hérna hjá okkur og erum í raun eina „golf resortið“ á Íslandi,“ segir Guðveig og bætir við að í byrjun sumars hafi aðeins helgarnar verið fullbókaðar en aðsóknin jókst upp úr miðjum júní. „Við erum búin að halda mörg mót og það hefur nánast verið fullbókað í allt sumar.“

Hótelið hefur fengið hæstu fjárhæð allra ferðaþjónustufyrirtækja í gegnum ferðagjöf stjórnvalda samkvæmt samantekt Ferðamálastofu. Alls hefur ferðagjöfum fyrir um 6,9 milljónir króna verið varið á Icelandair Hótel Hamri. Ferðagjöfina fá allir einstaklingar 18 ára og eldri með lögheimili á Íslandi til og með 31. desember næstkomandi.

„Fólk hefur mikið verið að nýta ferðagjöfina hjá okkur. Í henni felst náttúrulega mikill sparnaður fyrir fólk því ef til dæmis hjón koma til okkar þá spara þau sér 10.000 krónur samanlagt. Við erum mjög ánægð með útfærsluna á ferðagjöfinni því hún virðist vera mjög aðgengileg fyrir flesta,“ segir Guðveig og bætir við að flestir innlendir gestir hótelsins hafi nýtt sér þennan kost.

Guðveig segir að aðstaðan á Hótel Hamri sé glæsileg. „Við erum með 54 herbergi og nokkrar mismunandi gerðir af herbergjum. Hótelið er þrjá kílómetra norðan við Borgarnes og við höfum góða aðstöðu til fundar- og ráðstefnuhalda. Síðan erum við með mjög góðan veitingastað og allir okkar gestir hafa aðgang að heitum pottum og sauna.“

Spurð hvort hún sé bjartsýn á komandi vetur og haust segist Guðveig vera fremur bjartsýn þó svo að óvissan sé vissulega mikil. „Ég er bara nokkuð brött því ég er viss um að þetta muni ganga vel hjá okkur. Við bjóðum upp á mjög góða aðstöðu fyrir fundi, ráðstefnur og árshátíðir og við höfum verið mjög vinsæl í því. Við höfum fundið fyrir því að fyrirtæki og ýmsir aðilar eru að undirbúa fundarhöld að hausti með svona hefðbundnum hætti en að sjálfsögðu er ekki komin skýr mynd með haustið hvað varðar erlenda ferðamenn.“

Að lokum segir Guðveig að henni þyki einstaklega ánægjulegt að sjá hversu margir Íslendingar hafi kosið að ferðast innanlands í sumar.

„Maður er í rauninni bara mjög þakklátur Íslendingum og gaman að sjá hversu margir hafa nýtt sér alla þá þjónustu sem íslensk ferðaþjónusta býður upp á. Ekki aðeins hjá okkur heldur bara um allt land. Þetta getur orðið til þess að Íslendingar muni ferðast meira innanlands í framtíðinni og læri að meta það.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér