*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 2. apríl 2016 13:10

Vinsældirnar voru ótrúlegar

Ólafur Laufdal rak nokkra af vinsælustu skemmtistöðum landsins um árabil. Hann hóf ferilinn á Hótel Borg.

Ólafur Heiðar Helgason
Haraldur Guðjónsson

Ólafur Laufdal á að baki langan og litríkan feril í veitinga- og skemmtanabransanum. Hann byrjaði ferilinn á Hótel Borg sem pikkaló auk þess sem hann lærði framreiðslu þar. Ólafur var síðan barþjónn á Gullfossi í sjö ár, en að því loknu rak hann Hótel Borg í þrettán ár.

Ólafur hóf síðan störf á skemmtistaðnum Glaumbæ. „Í Glaumbæ var mest af ungu fólki og Hljómar vinsælasta hljómsveitin sem lék á staðnum. Glaumbær brennur 5. desember 1971 og þá fer ég í Sigtún sem er hinum megin við Austurvöllinn og var þar í stuttan tíma áður en ég tók þátt í rekstri Óðals. Á þessum tíma var Óðal besti veitingastaðurinn í Reykjavík en við vorum þrír sem áttum hann saman.

Eftir nokkur ár á Óðali er mér boðið að kaupa stað sem hét Sesar í Ármúla og hafði verið starfræktur í um ár án þess að ná miklum vinsældum. Ég kaupi staðinn og breyti nafninu í Hollywood. Það var eins og við manninn mælt, að frá fyrsta degi var þetta vinsælasti veitingastaður á Íslandi, fullt út úr dyrum alla daga,“ segir Ólafur.

Flutti inn heimsþekkta skemmtikrafta

Ólafur segir að þegar minnst var hafi 600 manns verið inni á Hollywood á kvöldi. Vinsældir staðarins hafi verið ótrúlegar. Eftir uppbyggingu Hollywood tók Ólafur þátt í uppbyggingu við Mjódd ásamt Árna Samúelssyni í Sambíóunum. Á neðri hæðinni rak Ólafur skemmtistaðinn Broadway sem tók 1.500 manns.

Ítarlegt viðtal við Ólaf er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Ólafur Laufdal