Private Dining er nýtt fyrirtæki í veitingageiranum sem gerir fólki kleift að breyta eigin heimili í sinn uppáhaldsveitingastað, um stundar sakir a.m.k. Viðskiptavinum gefst kostur á að bóka matreiðslumann og þjón frá fjórtán veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu, en um er að ræða veitingastaðina Duck & Rose, Fiskmarkaðinn, Forréttabarinn, Grillmarkaðinn, Kol, Matarkjallarann, PÜNK, Reykjavík Meat, Rok, Sjáland, Skál, Snaps, Steikhúsið og Sumac. Jón Kári Hilmarsson, annar af stofnendum Private Dining, segir að hugmyndin á bak við umrædda þjónustu eigi rætur sínar að rekja til fyrirtækis sem veitir álíka þjónustu í Kaupmannahöfn.

„Félagi meðstofnanda míns er búinn að reka fyrirtæki sem býður upp á mjög svipaða þjónustu í Kaupmannahöfn í nokkur ár. Fyrirtækið hefur gengið ágætlega en eftir að COVID-19 skall á þá jókst eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins verulega. Það hefur enginn boðið upp á sambærilega þjónustu hér heima og því ákváðum við að kýla á þetta. Okkur fannst við líka þurfa að leggja okkar af mörkum til að hjálpa veitingabransanum í gegnum þessa erfiðu tíma. Auk þess teljum við þetta vera mikið tækifæri fyrir viðskiptavinina, enda hefur ekki áður verið í boði að fá úrvals matreiðslumenn og þjóna frá hágæða veitingastöðum í heimahús."

Fleiri veitingastaðir bætist í flóruna

Jón Kári útskýrir að viðskiptavinir Private Dining njóti þjónustunnar í fjóra klukkutíma. Matreiðslumaður mæti um klukkutíma áður en gestirnir mæta og eldar matinn í eldhúsi gestgjafans. Þjónn leggur svo á borð, ber fram matinn, lýsir réttunum og sér til þess að fullkomna upplifunina. Matreiðslumaðurinn og þjónninn ganga svo frá eldhúsinu og matarborðinu og því getur gestgjafinn notið kvöldsins áhyggjulaus með gestum sínum.

„Á þeim þremur vikum sem við höfum verið starfandi höfum við þegar staðið fyrir nokkrum veislum. Að vísu hafa gestirnir í hverri veislu verið fáir, enda fylgjum við að sjálfsögðu öllum lögum og reglum sem tengjast sóttvörnum," segir Jón Kári. Þeir hafi þó gert sér vonir um að samkomutakmarkanir yrðu rýmkaðar núna í þessari viku. En eftir að í ljós kom að svo yrði ekki hafi þurft að afbóka þrjár tólf manna veislur sem var búið að bóka um komandi helgi. „Nú höldum við bara í vonina um að aðeins rýmri takmarkanir verði í gildi yfir jól og áramót, þannig að við getum þjónustað fleiri viðskiptavini."

Jón Kári kveðst gera fastlega ráð fyrir að fleiri veitingastaðir bætist við Private Dining-flóruna áður en langt um líður. „Við vitum af áhuga fleiri veitingastaða og við erum opnir fyrir því að hefja samstarf við fleiri staði. Við ákváðum að byrja á að keyra þetta áfram á þessum fjórtán veitingastöðum áður en lengra yrði haldið," segir Jón Kári. Hann kveðst reikna með að fyrirtækið hasli sér völl víðar en á höfuðborgarsvæðinu og til að mynda hafi viðræður átt sér stað við veitingastaði á Akureyri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .