Vinsælustu leitirnar á Já.is og Já.is snjallforritinu árið 2017 voru leitarorð tengd heilsu, hótelgistingu og útliti. Landsmenn flettu oftast upp heilsugæslu og hótelum þar á eftir voru það lyf, apótek, snyrtistofur og hárgreiðslustofur. Á síðastliðnu ári flettu landsmenn oftast upp á Landspítalanum og þar á eftir Póstinum. Önnur fyrirtæki sem sem notendur Já.is skoðuðu oft á árinu voru Lyfja, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og Landsbankinn að því er kemur fram í fréttatilkynningu..

Í hverjum mánuði eru framkvæmdar milli 3-4 milljónir leita á Já.is. Á árinu 2017 voru hringd um 1,9 milljón símtala úr Já.is appinu, en það er 27% aukning frá árinu á undan þegar símtölin voru 1,5 milljónir. Jafnframt leituðu notendur appsins ofast að Póstinum í vegvísinum en þar á eftir Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Í desember var sett met í fjölda notenda í Já.is appinu, en einstakir notendur voru ríflega 62.000 í mánuðinum.

„Það er ánægjulegt að sjá mikla aukningu í notkun Já.is appsins, en það býður upp á ýmis þægindi fyrir notendur, til dæmis vegvísinn sem nýtist vel þegar fólk er að finna staðsetningu fyrirtækja. Einnig er notkun á 360°kortavefnum á Já.is að aukast verulega. Við gáfum nýverið út leik á ja.is/flakk sem kallast Flakk, en í honum fá notendur upp 360° myndir og þurfa að finna út hvar á landinu þær eru teknar.Undirtektirnar hafa verið frábærar, landsmenn eru greinilega áhugasamir um landafræði en 40.000 manns hafa spilað leikinn frá því hann var settur í loftið í lok desember,“ segir Margrét Gunnlaugsdóttir, vöru- og viðskiptaþróunarstjóri Já.

15 vinsælustu leitarorðin í miðlum Já:

  1. Heilsugæsla
  2. Hótel
  3. Lyf
  4. Apótek
  5. Snyrtistofa
  6. Hárgreiðslustofa
  7. Sjúkraþjálfun
  8. Bílaverkstæði
  9. Heilbrigðisstofnun
  10. Læknastöð
  11. Tannlæknastofa
  12. Augnlæknir
  13. Dekkjaverkstæði
  14. Bílaleiga
  15. Fasteignasala