Vaxandi áhættusækni fjárfesta á allra síðustu vikum hefur valdið gengishækkunum ýmissa gjaldmiðla nýmarkaðs- og hávaxtaríkja. Sumir hagfræðingar telja hins vegar að þessar vinsældir gætu orðið skammvinnar: Áhættufælni fjárfesta muni aukast á ný þegar fréttir berast af frekari skakkaföllum vegna lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum. Það myndi aftur gera það að verkum að gengi lágvaxtamynta á borð við japanska jenið og svissneska frankann hækkaði samfara því að fjárfestar losuðu stöðu sína í hávaxtamyntum.

Á það er bent í greiningu Dow Jones-fréttaveitunnar að viðvarandi hátt olíuverð á heimsmarkaði og fregnir af nýjum vandræðum á fjármálamörkuðum gætu hrundið af stað slíkri atburðarás. Við þær aðstæður er ljóst að fjárfestar á gjaldeyrismörkuðum þyrftu að bregðast skjótt við til þess að lágmarka skaðann af áhættusömum fjárfestingum í gjaldmiðlum ríkja á borð við Ísland, Nýja-Sjáland, Suður-Afríku og Tyrkland.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .