Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 30,3% greiddra atkvæða og 21 þingmann þegar 35% atkvæða á landinu hafa verið talin. Talin atkvæði klukkan 01:22 voru 86.784 atkvæði en á kjörskrá eru 246.515.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur fengið næst flest atkvæði eða 16,3% og fengju samkvæmt því 11 menn kjörna en þar á eftir koma Píratar með 13,4% atkvæða og 9 menn.

Framsóknarflokkurinn og Viðreisn fá svipað magn atkvæða, Framsókn hefur fengið 10,6% og fengju því 7 þingmenn kjörna en Viðreisn með 10% og 6 þingmenn kjörna.

Björt framtíð hefur fengið 7,4% atkvæða og 5 þingmenn og Samfylkingin rekur lestina af þeim flokkum sem ná manni inná þing með 6,6% atkvæða og fengju því 4 menn kjörna.