Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, munu skipa fyrstu sætin á framboðslistum Vinstri grænna í Reykjavík.

Þetta kemur fram á vef Smugunnar, vefriti Vinstri grænna, en forval flokksins fór fram í dag.

Þá kemur fram að alþingismennirnir Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir munu samkvæmt niðurstöðunum skipa annað sætið í sitthvoru Reykjavíkurkjördæminu og Steinunn Þóra Árnadóttir og Ingimar Karl Helgason verða í þriðja sæti listanna.

Á vef Smugunnar kemur einnig fram að litlu hafi munað á Ingimar Karli og Birni Vali Gíslasyni.

Af þessari niðurstöðu að dæma má telja nær öruggt að Björn Valur detti af þingi í vor. Vinstri grænir eru í dag með fimm þingmenn í Reykjavík en fengju samkvæmt nýjasta Þjóðarpúls Capacent þrjá þingmenn. Að öllu óbreyttu ná Björn Valur því ekki nokkur möguleika á því að komast aftur á þing og að sama skapi eru Árni Þór og Álfheiður í fallhættu.

Björn Valur er nú þingmaður Norðausturkjördæmis, þar sem VG er nú með þrjá þingmenn. Samkvæmt könnunum eru Vinstri grænir töluvert langt frá því að ná þremur þingmönnum þar aftur og þar má finna skýringuna á því að Björn Valur færði sig til Reykjavíkur.  Sem fyrr segir er þó harla ólíklegt, og í raun nær útilokað, að hann nái inn á þing fyrir Reykjavík í vor.