Flokksráðsfundur Vinstri Grænna hefur staðið yfir frá því í gær og hafa fundargestir ályktað um ýmis málefni. Á meðal þeirra er ályktun um fjárfestingarfélög og húsnæðismarkaðinn. Þar er lýst áhyggjum yfir lokuðu hagkerfi Íslands og sagt áhyggjuefni að lagaumhverfi lífeyrissjóða og bankastofnana bjóði fáa aðra fjárfestingakosti, en fasteignir og eignir hins opinbera. Segir að brýnt sé að vinna raunhæfa áætlun um afnám fjármálahafta í íslensku samfélagi.

„Ástandið á húsnæðismarkaðnum ber þessarri stöðu glöggt vitni. Ýmis fjárfestingafélög hafa komið fram í krafti lífeyrissjóðanna og keypt markvisst upp ýmsar eignir sem skammtímafjárfestingu. Magnkaup fjárfestingafélaganna mynda húsnæðisverðbólu sem skapa hættu á nýju fjármálahruni á Íslandi,“ segir enn fremur í ályktuninni. Samkvæmt ályktuninni er eðlilegt að aðgerðir stjórnvöld beinist fyrst og fremst að þeim sem í mestum erfiðleikum eiga með að kaupa eða leigja húsnæði.