Leigjendur eru fundnir að mestum hluta gömlu Morgunblaðshallarinnar, þar sem nú er TM, í Aðalstræti.

Að sögn Arnar V. Kjartanssonar, framkvæmdastjóra Landic Property á Íslandi, liggja fyrir drög að leigusamningum um nánast allt það pláss sem Landic Property keypti í húsinu, fyrir utan efstu hæð hússins. Hann áréttar þó að samningar séu auðvitað aldrei í höfn fyrr en „blekið er þornað“.

Landic Property keypti húsnæðið af TM fyrir rúmum mánuði, en áætlað er að TM flytji úr húsinu fyrir áramót, að sögn Arnar.

Í húsinu eru alls 7 hæðir og eru 5 þeirra í eigu Landic Property.

„Alþingi mun líklega leigja næstefstu hæðina undir þingskrifstofur Vinstri grænna,“ segir Örn.

„Svo erum við í viðræðum við einn aðila sem vill leigja þrjár hæðir í húsinu.“

Fram hefur komið að til greina komi að innrétta jarðhæð hússins þannig að það henti verslunarrekstri. Aðspurður um áætlanir fyrir jarðhæðina sagði Örn liggja fyrir drög að samningi við veitingastað um leigu hluta jarðhæðarinnar. Hinn hluti hæðarinnar yrði þá innréttaður sem verslunarhúsnæði.

Örn gat ekki látið uppi um hvaða veitingastað væri að ræða, en sagði hann vera „starfandi veitingastað sem hefur verið vinsæll fyrir ferðamenn.“