Á stjórnarfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) síðdegis var ákveðið að stefna að því að halda landsfund flokksins helgina 20.-22. mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VG.

Þar kemur fram að dagsetning fundarins tekur mið af vilja Vinstri grænna til að gengið verði til kosninga laugardaginn 4. apríl, þ.e.a.s. helgina fyrir páska.

„Á undan kæmi stutt og snörp kosningabarátta en um það bil tveggja mánaða tímabil fram að henni ætti að tryggja framboðum nægan undirbúningstíma,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að miðlæg kosningastjórn VG er þegar tekin til starfa og unnið er að því að koma upp staðbundnum kosningastjórnum í öllum kjördæmum.

„Opnir málefnahópar hafa verið að störfum og mun flokkurinn beita sér fyrir því að nýir og verðandi félagar taki virkan þátt í því starfi fyrir kosningar,“ segir í tilkynningunni.