Í yfirlýsingu frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, segir að félagsfundur Vinstri grænna í Borgarbyggð lýsi hryggð sinni og furðu yfir því hvernig komið virðist fyrir Sparisjóði Mýrarsýslu.

„Sjóðurinn hefur verið ómetanlegur bakhjarl allri starfsemi í héraðinu og verðmætasta eign sveitarfélagsins. Sparisjóðurinn hefur á undanförnum árum skilað verulegum rekstrarafgangi, og aldrei sem síðustu tvö ár, en virðist nú skyndilega standa á brauðfótum, - hvernig má slíkt gerast?“ segir í yfirlýsingunni.

Vinstri grænir telja að stjórnendur Sparisjóðs Mýrarsýslu skuldi íbúum Borgarbyggðar skýringar á því að hvaða leyti stefna og starfshættir sparisjóðsins í lánastarfsemi og fjárfestingum hafa leitt til þeirrar stöðu sem sparisjóðurinn er kominn í.

Einnig mælast Vinstri grænir til þess að sveitarstjórn Borgarbyggðar sjái til þess að kryfja málið til mergjar og finni þá lausn sem best tryggir hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess.