Óvæntasta nafnið í ríkisstjórninni er án efa Ragna Árnadóttir sem tekur sæti dómsmálaráðherra. Lengi vel var gert ráð fyrir að Björg Thorarensen prófessor tæki við embættinu en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins sættu Vinstri grænir sig ekki við það. Því var Ragna kölluð inn á lokametrunum.

Þegar komið var að samsetningu ríkisstjórnarinnar í síðustu viku komu nöfn Gylfa Magnússonar og Bjargar Thorarensen fljótlega upp. Var horft til þess að þau væru óháðir sérfræðingar sem tækju sæti í stjórninni með afmörkuð verksvið.

Ljóst er að Gylfi var með erfiðan málaflokk sem viðskiptaráðherra og þar með bankamálin á sinni könnu. Þegar til átti að taka gátu Vinstri grænir ekki sætt sig við Björgu og settu það helst fyrir sig að hún væri of hægri sinnuð.

Einnig er hún gift Markúsi Sigurbjörnssyni hæstaréttardómara og óvíst hvernig það hefði getað gengið upp gagnvart stöðu hennar sem dómsmálaráðherra.

Niðurstaðan var að kalla inn Rögnu á lokametrunum.